Ferðin Hjarta Skotlands verður farin dagana 4.-11. júní 2025. Við gistum í hinu glæsilega Dalvay House sem staðsett er stutt frá bænum Forres, en Dalvey House var byggt árið 1798 og hefur verið í eigu MacLeod fjölskyldunnar frá upphafi. Húsið stendur á stórri einkalóð og er umkringt fallegum görðum fullum af lífi. Húsið höfum við útaf fyrir okkur og um matinn sér einkakokkur sem dekrar við okkur alla dagana. Við leggjum áherslu á hreint hráefni og heilbrigt fæði þar sem tillit er tekið til sérþarfa eins og kostur er og kjötneyslu verður haldið í lágmarki.
Frá Dalvay House förum við í lengri og styttri dagsferðir þar sem okkar bíða ótal ævintýri og upplifanir.
Kallar hjartað þitt á Skotland?
Hópurinn hittist í Sterling þaðan sem ekið verður af stað kl. 16:00. Ekið er yfir hálöndin áleiðis í átt að Forres. Stoppað er á fallegri heiði til að tengja við Hjarta Skotlands og náttúruverurnar á þessum fallega stað. Áætlað er að koma til Dalvay House um kl. 20:00 þar sem við komum okkur fyrir í herbergjunum og snæðum svo kvöldmat.